Fótbolti

Stabæk ætlar að útbúa japanska heimasíðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daigo Kobayashi í leik með japanska landsliðinu.
Daigo Kobayashi í leik með japanska landsliðinu. Mynd/GettyImages

Nýja tían hjá norsku meisturunum í Stabæk sló í gegn í fyrsta leik og nú snýst allt hjá félaginu um að bregðast við gríðarlegum áhuga á félaginu frá Japan. Ástæðan er hinn 26 ára Daigo Kobayashi.

Japaninn Daigo Kobayashi tók við tíunni af Veigari Páli Gunnarssyni og hlutverki Alanzinho á miðjunni. Hann átti stórleik í fyrsta leik þegar Stabæk vann 3-1 sigur á Vålerenga í Meistarakeppninni.

Kobayashi skoraði þá glæsilegt mark beint úr aukaspyrnu og átti einnig þátt í öðru marki í flottum sigri.

„Ég veit að Alanzinho var frábær og að margir stuðningsmenn sakna hans mikið. Ég vonast til að ég geti skilað góðum til liðsins með því að leggja mig 120 prósent fram. Vonandi koma allir áfram á leikina okkar og gleðjast yfir því liði sem við erum með í dag," sagði Kobayashi eftir fyrsta leikinn.

Þegar forráðamenn Stabæk fóru að taka eftir miklum fjölda heimsókna á heimasíðu sína frá Japan þá voru þeir fljótir til og ætla nú að útbúa japanska heimasíðu fyrir Stabæk.

Í frétt á heimasíðu norska Dagblaðsins er talað um að margir norskir tónlistarmenn hafi verið „Big in Japan" en nú hafa hlutirnir snúist við og nú er hinn japanski Kobayashi „Big in Norway".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×