Berlínarmúrinn Eiríkur Bergmann Einarsson skrifar 9. nóvember 2009 06:00 Í dag eru tuttugu ár liðin frá því að Berlínarmúrinn féll. Og kalda stríðinu lauk. Eins og stundum þegar heimssögulegir atburðir verða þá réðist tímasetningin af klaufaskap. Þýska alþýðulýðveldið (DDR) var að vísu komið að fótum fram en hékk saman á ógninni einni allt þar til að upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, Günter Schabowski, missti í taugaveiklun út úr sér á blaðamannafundi undir kvöld þann 9. nóvember 1989 að Austur-Þjóðverjar myndu þá þegar fá heimild til að ferðast vestur yfir. Það hafði þó ekki verið endanlega afgreitt. Umsvifalaust og fréttin barst þustu mótmælendur út eftir Unter den Linden og út að múrnum sem var hreinlega rifinn niður með berum höndum í beinni útsendingu. Landamæraverðirnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið, þeim hafði ekki verið sagt frá þessum breyttu háttum. Blessunarlega brugðu þeir ekki til varna. Daginn eftir var allt breytt. Þýskaland sameinaðist árið eftir og svo liðuðust Sovétríkin loks í sundur í ágúst 1991.Táknmynd kalda stríðsinsBerlínarmúrinn var reistur árið 1961 og varð um leið að táknmynd kalda stríðsins. Hann samanstóð af tveimur samsíða veggjum sem skildu heimsveldin og heimskerfin að. Yfirleitt var vírvirki austan megin en steyptur múr vestan megin. Á milli var víðáttumikið einskismannsland. Þar var ekkert nema ógnandi varðturnar, þrautþjálfaðir vélbyssuhermenn, vöðlaður gaddavír og jarðsprengjur í tilviljanakenndri röð. Á þessu dauðasvæði var drepinn fjöldi fólks sem reyndi að flýja. Misserin og mánuðina á undan hafði þung undiralda andófs magnast út um alla Austur-Evrópu og mótmælendur voru farnir að láta til sín taka. Mörgum árum fyrr velgdi Samstaða pólskum stjórnvöldum undir uggum og ungverska ríkisstjórnin hafði fjarlægt gaddavírsgirðingarnar á landamærunum við Austurríki í lok maí árið 1989. Þegar komið var fram á þetta örlagaríka nóvemberkvöld höfðu hundruð þúsunda Austur-Þjóðverja flúið vestur yfir, meðal annars í gegnum Ungverjaland. Múrinn fellurÁ fjörutíu ára afmæli DDR, hinn 7. október 1989, var hinn ungi sovétleiðtogi, Mikhail Gorbachev, kominn til að láta austurþýsku öldungana vita að róttækar umbætur gætu ekki beðið. Andófið hófst löngu áður við Nikulásarkirkjuna í Leipzig, en þar höfðu efasemdamenn ríkjandi ástands löngum komið saman í óþökk stjórnvalda, og smám saman hafði krafan um endurbætur á hinu sósíalíska þjóðskipulagi breiðst út um landið. Og sífellt fjölgaði í mótmælendahópunum sem fylltu götur Leipzig-borgar, Dresden og Austur-Berlínar. En öldungarnir skildu ekki tímans þunga nið, ornuðu sér í afneitun við að fylgjast með glæsilegri heiðursfylkingu hermanna marsera undir rauðum fána á afmælinu. Leiðtoginn Eric Honecker sagði við það tækifæri að Berlínarmúrinn – sem hann kallaði raunar aldrei annað en andfasíska friðarskilrýmið – myndi standa í hundrað ár til viðbótar. Rúmum mánuði síðar var múrinn fallinn. Aðrir múrarEnn í dag reisa menn aðskilnaðarmúra víða um heim. Í Ísrael eru arabar hnepptir í afmúruð gettó með himinháum steinvegg sem hlykkjast utan um byggðir þeirra í Palestínu. Í Bandaríkjunum eru múrgerðarmenn sérlega áhugasamir um himinhátt skilrúm sem á að greina Suður-Ameríku endanlega frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þvert eftir landamærunum að Mexíkó. Og í Evrópu eru Brusselingar í Schengen-samstarfinu í óðaönn að reisa ógnarháan andinnflytjendamúr skrifræðis, sem aðeins sérdeilis vel fleygir fuglar geta komist yfir, en allra síst fátækt verkafólk frá Afríku. Sá múr er að vísu hvorki áþreifanlegur né sýnilegur berum augum en Evrópuvirkið er að þessu leyti eigi að síður afar raunverulegt. Svo er Berlínarmúr hugans nú einnig víða að finna. Eftir efnahagshrunið má til að mynda hér heima greina aukna andúð manna á milli í umræðunni, skotgrafirnar í íslenskum stjórnmálum hafa sjaldan verið dýpri. Í slíku ástandi er raunveruleg hætta á að nýr Berlínarmúr rísi í hugum fólks, þar að segja ef okkur tekst ekki að þjappa þjóðinni betur saman í þeim viðamiklu og mikilvægu verkefnum sem við stöndum nú frammi fyrir við að endurreisa og endurbæta íslenskt samfélag. Eða eins og Gorbachev sagði við Honecker á 40 ára afmæli DDR: Lífið refsar þeim sem kemur of seint.Höfundur er stjórnmálafræðingur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun
Í dag eru tuttugu ár liðin frá því að Berlínarmúrinn féll. Og kalda stríðinu lauk. Eins og stundum þegar heimssögulegir atburðir verða þá réðist tímasetningin af klaufaskap. Þýska alþýðulýðveldið (DDR) var að vísu komið að fótum fram en hékk saman á ógninni einni allt þar til að upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, Günter Schabowski, missti í taugaveiklun út úr sér á blaðamannafundi undir kvöld þann 9. nóvember 1989 að Austur-Þjóðverjar myndu þá þegar fá heimild til að ferðast vestur yfir. Það hafði þó ekki verið endanlega afgreitt. Umsvifalaust og fréttin barst þustu mótmælendur út eftir Unter den Linden og út að múrnum sem var hreinlega rifinn niður með berum höndum í beinni útsendingu. Landamæraverðirnir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið, þeim hafði ekki verið sagt frá þessum breyttu háttum. Blessunarlega brugðu þeir ekki til varna. Daginn eftir var allt breytt. Þýskaland sameinaðist árið eftir og svo liðuðust Sovétríkin loks í sundur í ágúst 1991.Táknmynd kalda stríðsinsBerlínarmúrinn var reistur árið 1961 og varð um leið að táknmynd kalda stríðsins. Hann samanstóð af tveimur samsíða veggjum sem skildu heimsveldin og heimskerfin að. Yfirleitt var vírvirki austan megin en steyptur múr vestan megin. Á milli var víðáttumikið einskismannsland. Þar var ekkert nema ógnandi varðturnar, þrautþjálfaðir vélbyssuhermenn, vöðlaður gaddavír og jarðsprengjur í tilviljanakenndri röð. Á þessu dauðasvæði var drepinn fjöldi fólks sem reyndi að flýja. Misserin og mánuðina á undan hafði þung undiralda andófs magnast út um alla Austur-Evrópu og mótmælendur voru farnir að láta til sín taka. Mörgum árum fyrr velgdi Samstaða pólskum stjórnvöldum undir uggum og ungverska ríkisstjórnin hafði fjarlægt gaddavírsgirðingarnar á landamærunum við Austurríki í lok maí árið 1989. Þegar komið var fram á þetta örlagaríka nóvemberkvöld höfðu hundruð þúsunda Austur-Þjóðverja flúið vestur yfir, meðal annars í gegnum Ungverjaland. Múrinn fellurÁ fjörutíu ára afmæli DDR, hinn 7. október 1989, var hinn ungi sovétleiðtogi, Mikhail Gorbachev, kominn til að láta austurþýsku öldungana vita að róttækar umbætur gætu ekki beðið. Andófið hófst löngu áður við Nikulásarkirkjuna í Leipzig, en þar höfðu efasemdamenn ríkjandi ástands löngum komið saman í óþökk stjórnvalda, og smám saman hafði krafan um endurbætur á hinu sósíalíska þjóðskipulagi breiðst út um landið. Og sífellt fjölgaði í mótmælendahópunum sem fylltu götur Leipzig-borgar, Dresden og Austur-Berlínar. En öldungarnir skildu ekki tímans þunga nið, ornuðu sér í afneitun við að fylgjast með glæsilegri heiðursfylkingu hermanna marsera undir rauðum fána á afmælinu. Leiðtoginn Eric Honecker sagði við það tækifæri að Berlínarmúrinn – sem hann kallaði raunar aldrei annað en andfasíska friðarskilrýmið – myndi standa í hundrað ár til viðbótar. Rúmum mánuði síðar var múrinn fallinn. Aðrir múrarEnn í dag reisa menn aðskilnaðarmúra víða um heim. Í Ísrael eru arabar hnepptir í afmúruð gettó með himinháum steinvegg sem hlykkjast utan um byggðir þeirra í Palestínu. Í Bandaríkjunum eru múrgerðarmenn sérlega áhugasamir um himinhátt skilrúm sem á að greina Suður-Ameríku endanlega frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þvert eftir landamærunum að Mexíkó. Og í Evrópu eru Brusselingar í Schengen-samstarfinu í óðaönn að reisa ógnarháan andinnflytjendamúr skrifræðis, sem aðeins sérdeilis vel fleygir fuglar geta komist yfir, en allra síst fátækt verkafólk frá Afríku. Sá múr er að vísu hvorki áþreifanlegur né sýnilegur berum augum en Evrópuvirkið er að þessu leyti eigi að síður afar raunverulegt. Svo er Berlínarmúr hugans nú einnig víða að finna. Eftir efnahagshrunið má til að mynda hér heima greina aukna andúð manna á milli í umræðunni, skotgrafirnar í íslenskum stjórnmálum hafa sjaldan verið dýpri. Í slíku ástandi er raunveruleg hætta á að nýr Berlínarmúr rísi í hugum fólks, þar að segja ef okkur tekst ekki að þjappa þjóðinni betur saman í þeim viðamiklu og mikilvægu verkefnum sem við stöndum nú frammi fyrir við að endurreisa og endurbæta íslenskt samfélag. Eða eins og Gorbachev sagði við Honecker á 40 ára afmæli DDR: Lífið refsar þeim sem kemur of seint.Höfundur er stjórnmálafræðingur.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun