Handbolti

Júlíus: Vitum að þetta verður erfitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Júlíus Jónasson, þjálfari íslenska landsliðsins.
Júlíus Jónasson, þjálfari íslenska landsliðsins.

Júlíus Jónasson á von á tveimur mjög erfiðum leikjum þegar að Ísland mætir svokölluðu „B-landsliði" Noregs í Mýrinni í Garðabæ um helgina.

Fyrri leikurinn fer fram í dag klukkan 16.00 og sá síðari á morgun klukkan 14.00. Frítt er inn á báða leikina.

„Þó svo að þetta heiti B-lið Noregs þá eru þetta mjög sterkir leikmenn," sagði Júlíus. „Það er mikið af stelpum úr U-20 liði Noregs í þessu liði en það er ríkjandi heimsmeistari í þessum aldursflokki. Þá eru líka aðrir leikmenn í liðinu sem hafa verið við það að komast í A-liðið."

„Noregur er ein af bestu þjóðum heims í kvennahandbolta og við erum að spila við gríðarlega öflugt lið. Þetta verða erfiður leikir og við vitum það. Við förum inn í þá með því hugarfari."

Júlíus segir að þessir leikir séu kærkomnir fyrir íslenska landsliðið sem er nú að undirbúa sig fyrir lokakeppni EM sem haldin verður í Danmörku í desember.

„Það er ekki langt síðan að það var ákveðið að hafa þessa leiki og það er sérstaklega gleðilegt fyrir okkur þar sem að leikirnir fara ekki fram á alþjóðlegum leikdögum. Það var einni umferð í N1-deild kvenna frestað til að koma liðinu saman nú."

Norska deildin er einnig í fríi en það er enn verið að spila í Svíþjóð og Danmörku. Af þeim sökum gátu þær Rut Jónsdóttir (Team Tvis, Danmörku) og Harpu Sif Eyjólfsdóttir (Spårvagen, Svíþjóð) ekki verið með landsliðinu nú

Ísland tók þátt í æfingamóti í Hollandi í lok september þar sem liðið tapaði öllum sínum leikjum með nokkrum myndarlegum mun.

„Auðvitað var það ekki æskilegt og við hefðum viljað eðlileg úrslit og betri. En við vorum 3-4 vikum á eftir hinum liðunum þar sem deildarkeppnin í þessum löndum var byrjuð en okkar byrjaði ekki fyrr en í október."

„Allir leikmenn gerðu sér grein fyrir þessu og það var augljós munur á liðunum. Mér líst miklu betur á liðið nú og það er greinilegt að leikmenn eru komnir lengra á veg. Þar að auki vorum við að spila upp fyrir okkur eins og við höfum oft áður gert á svona æfingamótum og það er því yfirleitt talsvert á brattann að sækja fyrir okkur."

„En þegar uppi er staðið tel ég að við höfum grætt á því. Við vorum í eðlilegum riðli í undankeppninni en komust í gegnum hana."

Júlíus er því nokkur ánægður með stöðu liðsins í dag og líst vel á framhaldið. „Mér líst vel á að fá þessa leiki enda gott að spila sem mest. Þetta verður vissulega erfitt en leikmenn munu leggja þeim mun harðar að sér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×