Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, býst við því að liðið hans toppi á HM 2014 sem fer fram í Brasilíu. Þýska landsliðið hefur verið í 3. sæti á síðustu tveimur heimsmeistaramótum og varð í 2. sæti á Evrópumeistaramótinu fyrir tveimur árum.
„Við höfum framtíðar-kjarna liðsins klárann en ég á eftir að gera fullt af breytingum þannig að liðið geti náð fram sínu allra besta á HM 2014 í Brasilíu," sagði Joachim Löw við Sport Bild.
Þýska liðið lék án þeirra Michael Ballack, Simon Rolfes og Heiko Westermann á HM í sumar en ungu mennirnir sem komu í staðinn nýttu tækifærið og blómstruðu.
Manuel Neuer, Mesut Ozil, Sami Khedira og Thomas Muller komu allir inn í stór hlutverk og náðu vel saman með þeim Philipp Lahm, Bastian Schweinsteiger, Lukas Podolski og Per Mertesacker sem eru allir á bilinu 24 til 26 ára.
Þýska liðið mætir Dönum í vináttuleik í Kaupmannahöfn í kvöld en Joachim Löw gaf HM-leikmönnum sínum frí og þá er Michael Ballack ekki kominn að stað eftir meiðslin.
