Í síðari hluta júní 2008 var haldinn ársfundur Alþjóðagreiðslubankans í Basel en þar ræddi seðlabankastjóri Lúxemborgar, Yves Mersch, við Ingimund Friðriksson, einn þriggja seðlabankastjóra á Íslandi.
Þar sagði Mersch við Ingimund að íslensku bankarnir hefðu nýtt sér fyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu fram úr öllu hófi og sagt að engir bankar vildu lengur eiga viðskipti við þá. Þeir væru eins og holdsveikisjúklingar sem enginn vildi koma nálægt.
Á þessum tíma höfðu íslensku bankarnir fengið fjóra milljarða evra að láni hjá Seðlabanka Lúxemborg.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, hafði áður haft samband við Davíð Oddsson undir lok apríl 2008 og lýst óánægju sinni með veðlánstöku
íslensku bankanna hjá Seðlabanka Lúxemborgar.
Þessi samskipti báru keim viðhorfsbreytinga erlendra seðlabankastjóra gagnvart Íslendingum samkvæmt rannsóknarskýrslunni í aðdraganda hrunsins.