Gylfi Þór Sigurðsson skoraði beint úr aukaspyrnu þegar Hoffenheim vann 2-0 sigur á Gladbach í sextán liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í kvöld.
Gylfi skoraði markið sitt á 35. mínútu leiksins og kom Hoffenheim í 1-0. Þetta var sjöunda mark hans á tímabilinu í 15 leikjum þar af þriðja markið sem hann skorar beint úr aukaspyrnu.
Senegalmaðurinn Demba Ba skoraði seinna mark Hoffenheim á 63. mínútu eftir sendingu frá Bosníumanninum Sejad Salihovic. Gylfi fékk gult spjald fjórum mínútum áður en Ba skoraði markið sitt.
Gylfi var í byrjunarliðinu í þriðja leiknum í röð en hann kom inn á sem varamaður í níu af fyrstu ellefu deildarleikjum sínum með Hoffenheim-liðinu. Gylfa var síðan skipt útaf mínútu fyrir leikslok.
