Handbolti

Lítil stemning í Höllinni

Elvar Geir Magnússon skrifar
Aron fær að kenna á því í leiknum í gær.
Aron fær að kenna á því í leiknum í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við unnum þá á EM og þá fékk maður að kynnast því að það er helvíti gaman að vinna Dani," sagði Aron Pálmarsson sem var besti leikmaður Íslands í leiknum í gær. „Maður hefði viljað skora einu marki meira og ná að vinna þennan leik. Við fáum annað tækifæri á morgun (í kvöld)."

Aron segir að strákarnir þurfi að mæta aðeins betur stemmdir í leikinn í kvöld. „Við þurfum að setja 10-15% meiri alvöru í þetta og gera þetta af meiri krafti. Þá eigum við alveg að vinna þetta lið," sagði Aron.

„Markvarslan og varnarleikurinn datt niður í seinni hálfleiknum. Hreiðar varði ekki bolta og við vorum mjög slakir í vörninni. Tempóið datt niður hjá okkur og við vorum kannski ekki að rótera liðinu eins mikið og þeir. Mér fannst þó að við ættum að vinna og við værum í betri möguleika."

Það leynir sér ekki að Aron er fullur sjálfstrausts eftir velgengnina með Kiel og var hann að finna sig vel. Hann steig upp á mikilvægum augnablikum í seinni hálfleiknum. „Maður notfærir sér þessa velgengni og lætur hana ekki stíga sér til höfuðs. Það vantaði skyttur hjá okkur og maður er í aðeins öðru hlutverki en úti. Maður fær að skjóta meira og það er bara gaman," sagði Aron sem var ekki sáttur við mætinguna á leikinn.

„Við verðum að fá fulla höll í svona leiki. Það var leiðinlegt að syngja þjóðsönginn og það heyrðist lítið í Höllinni. Fólk á að mæta á leiki sama þó það séu æfingaleikir. Eitt besta lið heims er í heimsókn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×