Það er heldur betur farið að hitna í kolunum fyrir leik Hauka og FH í N1-deild karla dag. Leikurinn hefst klukkan 15.45 og fer fram að Ásvöllum.
Í gærkvöldi var Haukamerkið utan á íþróttahúsinu að Ásvöllum brotið og er leikmaður FH bendlaður við verknaðinn.
Samkvæmt heimildum Vísis var um algert óviljaverk að ræða en hörðustu stuðningsmenn Hauka kaupa þá afsökun ekki.
Þessi atburður á klárlega eftir að magna enn frekar upp andrúmsloftið fyrir leik dagsins en búist er við allt að 3.000 manns á leikinn.
Verður klárlega tekist harkalega á innan vallar sem utan en vonandi sýður ekki upp úr.