Handbolti

Ísland á góðan möguleika á HM-sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorgerður Anna Atladóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Þorgerður Anna Atladóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Ole Nielsen

Íslenska landsliðið í handbolta mætir Úkraínu í umspili um laust sæti á HM í handbolta sem fer fram í Brasilíu á næsta ári.

Dregið var nú í hádeginu í Herning í Danmörku þar sem úrslit Evrópumeistaramótsins ráðast í dag.

Ísland var í neðri styrkleikaflokki þegar dregið var í dag en liðin sem urðu í 4.-12. sæti á EM í handbolta voru í þeim efri - að undanskildu Rússlandi sem er ríkjandi heimsmeistari og þegar búið að tryggja sér þátttökurétt á HM í Brasilíu.

Úkraína varð í tólfta sæti á EM en Ísland, sem var að keppa á sínu fyrsta stórmóti í handbolta, í fimmtánda sæti.

Úkraína er þó með ríka hefð í kvennahandbolta og hefur tekið þátt í nánast öllum stórmótum síðustu sextán árin.

Fyrri leikurinn fer fram hér á landi annað hvort 4. eða 5. júní næstkomandi og liðin mætast svo aftur í Úkraínu viku síðar.

Noregur og Svíþjóð hafa þegar tryggt sér sæti á HM en þau mætast í úrslitaleik EM í dag. Sigurvegari leiks Dana og Rúmena um bronsið fær einnig farseðilinn til Brasilíu.

Leikirnir í umspilinu:

Tékkland - Svartfjallaland

Holland - Tyrkland

Spánn - Makedónía

Frakkland - Slóvenía

Króatía - Serbía

Ísland - Úkraína

Þýskaland - Ungverjaland

Pólland - Danmörk eða Rúmenía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×