Lífið

Shia skammar Spielberg og Harrison Ford

Ákafur ungur maður Shia LaBeouf hefur eflaust hlaupið aðeins fram úr sér þegar hann skammaði Harrison Ford, Steven Spielberg og Robert De Niro.
Ákafur ungur maður Shia LaBeouf hefur eflaust hlaupið aðeins fram úr sér þegar hann skammaði Harrison Ford, Steven Spielberg og Robert De Niro.

Shia LaBeouf, leikarinn úr Transform­ers, skammar bæði Steven Spielberg og Harr­ison Ford í viðtali við breska götublaðið The Sun. Hann hneykslast líka á Robert De Niro sem hafi einfaldlega náð ákveðnu takmarki og sé sáttur við það.

Shia hefur skotist með ógnarhraða upp á stjörnuhimin Hollywood en hann vakti fyrst mikla athygli í hasarmyndinni Transformers. Hann kveðst hins vegar ekki hafa verið hrifinn af því hvað Steven Spielberg og Harrison Ford gerðu með Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull.

„Hún stóðst engan veginn þær væntingar sem til hennar voru gerðar," segir Shia í samtali við The Sun. Myndin sló hins vegar rækilega í gegn hjá áhorfendum og þénaði vel en gagnrýnendur virtust ekki alveg jafn hrifnir.

„Ég var búinn að samþykkja að leika í Wall Street 2 þegar myndin var frumsýnd og hafði áhyggjur af því að ég yrði tengdur við misheppnaðar framhaldsmyndir. Ég var nýlega búinn að leika í mynd þar sem mér fannst við kasta rýrð á orðspor Indiana. Ég vildi ekki endurtaka þann leik."

Shia lýkur viðtalinu á því að skammast yfir ferli Roberts De Niro sem hefur vissulega ekki verið upp á sitt besta undanfarin ár.

„Ég er ekki þar sem mig langar að vera. Og ég vonast til að ná aldrei þessum De Niro-stað þar sem maður er einhvers staðar og er bara ánægður með það," segir Shia. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×