Kögunarhóll: Ráðherraábyrgð og lýðræði Þorsteinn Pálsson skrifar 25. september 2010 11:46 Einn af þingmönnum VG, Lilja Mósesdóttir, sagði á dögunum að landsdómsákærurnar fælu í sér uppgjör við pólitíska hugmyndafræði. Af þeim ummælum er þó ekki unnt að draga þá ályktun að allir sem vilja ákæra geri það á sömu forsendu. Ummælin segja aðeins þá sögu að þetta er ein af þeim forsendum sem liggja til grundvallar þegar atkvæði falla. Á hinn bóginn draga þau athygli að þeirri staðreynd að ákærurnar snúast um það hvernig þeir sem hlut áttu að máli mátu aðstæður frá febrúar fram til október 2008. Eðlilegt er að á því álitaefni hafi menn ólíkar skoðanir. Þær skoðanir geta skipst eftir flokkslínum. Þær kunna líka að vera ólíkar eftir mismunandi mati hagfræðinnar á markaðsviðbrögðum við tilteknar aðstæður. Stóra spurningin er: Hvenær er réttlætanlegt að dæma ráðherra til refsingar vegna skoðana eða vegna mats á áhrifum aðgerða á peningamarkaði? Eða: Er það yfir höfuð réttlætanlegt? Þessar spurningar snúa að kjarna lýðræðisins. Enginn ágreiningur er um að þau rök sem þingmaðurinn Lilja Mósesdóttir nefndi fyrir ákærum stríða gegn lýðræðisskipulaginu. Hver er þá munurinn á því að leyfa ekki refsingar vegna skoðana en leyfa þær vegna mismunandi mats á áhrifum aðgerða á sviði peningamála? Stóru mistök meirihluta þingmannanefndarinnar eru þau að rökstyðja ekki hvar markalínan liggur þar á milli. Hvað átti að gera?Hvað gat þingmannanefndin gert til þess að draga þessa markalínu? Í raun var það aðeins unnt með því að tilgreina ákveðnar ráðstafanir og sýna með rökum fram á að með því að beita þeim hefði mátt koma í veg fyrir hrun krónunnar og fall bankanna. Skaði almennings var fyrst og fremst vegna hruns krónunnar. Hvers vegna var þetta ekki gert? Sennilega vegna þess að það var ómögulegt. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið unnt að koma í veg fyrir fall bankanna eftir 2006. Þegar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra var spurð að því til hvaða ráða sakborningarnir hefðu átt að grípa féllst hún á að þeirri spurningu þyrfti að svara og nefndi gjaldeyrisvarasjóð og fjárlög. Það er rétt að þetta eru þau stjórntæki sem ríkisstjórnin gat helst beitt. Einar Oddur Kristjánsson gagnrýndi á sínum tíma eigin ríkisstjórn fyrir of lítinn afgang á fjárlögum. VG lagði þá til að auka útgjöldin og eyða afganginum með öllu. Hverjir höfðu mest rangt fyrir sér í þessu tilviki? Samræmist það síðan leikreglum lýðræðisins að ákæra ráðherra vegna fjárlaga sem Alþingi samþykkti? Margir eru þeirrar skoðunar að svo miklir atburðir hafi gerst að almenn ráðherraábyrgð fullnægi ekki réttlætisvitund fólks. Það er um margt skiljanlegt. Þær tilfinningar mega hins vegar ekki reka þingmenn til þess að ákæra fyrir skoðanir eða mat á mismunandi áhrifum aðgerða á peningamarkaði. Matsatriðin Árið 2008 þurfti að meta hvort verjandi væri að hjálpa Landsbankanum með því að setja peninga skattborgaranna að veði til þess að koma ábyrgðinni á Icesave úr landi. Þetta var ekki gert og telst því vera athafnaleysi. Hér þarf hins vegar að spyrja: Hefur verið sýnt fram á að slík athöfn hefði örugglega verið hagstæðari fyrir skattborgarana? Þann rökstuðning er ekki að finna í ákæruskjölunum. Er athafnaleysið þá refsivert? Einn af sérfræðingum Seðlabankans lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að bankinn hefði staðið andspænis því að allar aðgerðir gegn viðskiptabönkunum, eins og þvingun til samruna, gátu leitt til falls þeirra. Til slíkra aðgerða var ekki gripið fyrr en með yfirtöku Glitnis. Athyglisvert er að einmitt sú tillaga Seðlabankans, sem ríkisstjórnin framkvæmdi, sætir gagnrýni í rannsóknarnefndarskýrslunni. Í ákæruskjölunum eru heldur engin rök leidd að því að skattborgararnir hefðu hagnast á því að gripið hefði verið fyrr til slíkra aðgerða á árinu 2008. Er það athafnaleysi þá refsivert? Stjórnarskráin mælir fyrir um að ráðherrafundi skuli halda um mikilvæg stjórnarmálefni. Það merkir að ráðherra leitar þar eftir pólitískri samstöðu um aðgerðir sem hann telur nauðsynlegar. Það eru ekki gild rök að forsætis-ráðherra hafi verið skylt að viðlagðri refsingu að útbúa yfirlitsskjal með þeim álitamálum sem hér eru nefnd og ræða á ríkisstjórnarfundi. Er ekki líka langt seilst að ákæra fyrir þá sök að ræða ekki í ríkisstjórn skjal sem ekki var til? Hin hliðin á þeim peningi er spurningin: Geta ráðherrar þá leyst sig undan ábyrgð með svo einföldum hætti að búa til matsgerðir og hafa um þær hugarflæðisfund í ríkisstjórn? Athafnaleysi getur verið refsivert. Þegar það snýst hins vegar um mat eins og í þessu tilviki verður ekki á það fallist að því verði við komið nema refsa eigi fyrir skoðanir. Það er um þá spurningu sem Alþingi greiðir nú atkvæði. Fari svo eru undirstöður lýðræðisins í hættu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið „Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun 27-faldur hagnaður!? Ásthildur Lóa Þórsdóttir Skoðun Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun Laumu risinn í landsframleiðslunni Ása Berglind Hjálmarsdóttir Skoðun Er barnið sjúkt í sykur? Elísabet Konráðsdóttir,Margrét Sigmundsdóttir Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Breytum þessari sérhagsmunagæslu Aðalsteinn Leifsson Skoðun Bleiki fíllinn í herberginu Karólína Helga Símonardóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Samfylkingin er með plan um að lögfesta leikskólastigið Dagbjört Hákonardóttir Skoðun
Einn af þingmönnum VG, Lilja Mósesdóttir, sagði á dögunum að landsdómsákærurnar fælu í sér uppgjör við pólitíska hugmyndafræði. Af þeim ummælum er þó ekki unnt að draga þá ályktun að allir sem vilja ákæra geri það á sömu forsendu. Ummælin segja aðeins þá sögu að þetta er ein af þeim forsendum sem liggja til grundvallar þegar atkvæði falla. Á hinn bóginn draga þau athygli að þeirri staðreynd að ákærurnar snúast um það hvernig þeir sem hlut áttu að máli mátu aðstæður frá febrúar fram til október 2008. Eðlilegt er að á því álitaefni hafi menn ólíkar skoðanir. Þær skoðanir geta skipst eftir flokkslínum. Þær kunna líka að vera ólíkar eftir mismunandi mati hagfræðinnar á markaðsviðbrögðum við tilteknar aðstæður. Stóra spurningin er: Hvenær er réttlætanlegt að dæma ráðherra til refsingar vegna skoðana eða vegna mats á áhrifum aðgerða á peningamarkaði? Eða: Er það yfir höfuð réttlætanlegt? Þessar spurningar snúa að kjarna lýðræðisins. Enginn ágreiningur er um að þau rök sem þingmaðurinn Lilja Mósesdóttir nefndi fyrir ákærum stríða gegn lýðræðisskipulaginu. Hver er þá munurinn á því að leyfa ekki refsingar vegna skoðana en leyfa þær vegna mismunandi mats á áhrifum aðgerða á sviði peningamála? Stóru mistök meirihluta þingmannanefndarinnar eru þau að rökstyðja ekki hvar markalínan liggur þar á milli. Hvað átti að gera?Hvað gat þingmannanefndin gert til þess að draga þessa markalínu? Í raun var það aðeins unnt með því að tilgreina ákveðnar ráðstafanir og sýna með rökum fram á að með því að beita þeim hefði mátt koma í veg fyrir hrun krónunnar og fall bankanna. Skaði almennings var fyrst og fremst vegna hruns krónunnar. Hvers vegna var þetta ekki gert? Sennilega vegna þess að það var ómögulegt. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið unnt að koma í veg fyrir fall bankanna eftir 2006. Þegar Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra var spurð að því til hvaða ráða sakborningarnir hefðu átt að grípa féllst hún á að þeirri spurningu þyrfti að svara og nefndi gjaldeyrisvarasjóð og fjárlög. Það er rétt að þetta eru þau stjórntæki sem ríkisstjórnin gat helst beitt. Einar Oddur Kristjánsson gagnrýndi á sínum tíma eigin ríkisstjórn fyrir of lítinn afgang á fjárlögum. VG lagði þá til að auka útgjöldin og eyða afganginum með öllu. Hverjir höfðu mest rangt fyrir sér í þessu tilviki? Samræmist það síðan leikreglum lýðræðisins að ákæra ráðherra vegna fjárlaga sem Alþingi samþykkti? Margir eru þeirrar skoðunar að svo miklir atburðir hafi gerst að almenn ráðherraábyrgð fullnægi ekki réttlætisvitund fólks. Það er um margt skiljanlegt. Þær tilfinningar mega hins vegar ekki reka þingmenn til þess að ákæra fyrir skoðanir eða mat á mismunandi áhrifum aðgerða á peningamarkaði. Matsatriðin Árið 2008 þurfti að meta hvort verjandi væri að hjálpa Landsbankanum með því að setja peninga skattborgaranna að veði til þess að koma ábyrgðinni á Icesave úr landi. Þetta var ekki gert og telst því vera athafnaleysi. Hér þarf hins vegar að spyrja: Hefur verið sýnt fram á að slík athöfn hefði örugglega verið hagstæðari fyrir skattborgarana? Þann rökstuðning er ekki að finna í ákæruskjölunum. Er athafnaleysið þá refsivert? Einn af sérfræðingum Seðlabankans lýsti því fyrir rannsóknarnefndinni að bankinn hefði staðið andspænis því að allar aðgerðir gegn viðskiptabönkunum, eins og þvingun til samruna, gátu leitt til falls þeirra. Til slíkra aðgerða var ekki gripið fyrr en með yfirtöku Glitnis. Athyglisvert er að einmitt sú tillaga Seðlabankans, sem ríkisstjórnin framkvæmdi, sætir gagnrýni í rannsóknarnefndarskýrslunni. Í ákæruskjölunum eru heldur engin rök leidd að því að skattborgararnir hefðu hagnast á því að gripið hefði verið fyrr til slíkra aðgerða á árinu 2008. Er það athafnaleysi þá refsivert? Stjórnarskráin mælir fyrir um að ráðherrafundi skuli halda um mikilvæg stjórnarmálefni. Það merkir að ráðherra leitar þar eftir pólitískri samstöðu um aðgerðir sem hann telur nauðsynlegar. Það eru ekki gild rök að forsætis-ráðherra hafi verið skylt að viðlagðri refsingu að útbúa yfirlitsskjal með þeim álitamálum sem hér eru nefnd og ræða á ríkisstjórnarfundi. Er ekki líka langt seilst að ákæra fyrir þá sök að ræða ekki í ríkisstjórn skjal sem ekki var til? Hin hliðin á þeim peningi er spurningin: Geta ráðherrar þá leyst sig undan ábyrgð með svo einföldum hætti að búa til matsgerðir og hafa um þær hugarflæðisfund í ríkisstjórn? Athafnaleysi getur verið refsivert. Þegar það snýst hins vegar um mat eins og í þessu tilviki verður ekki á það fallist að því verði við komið nema refsa eigi fyrir skoðanir. Það er um þá spurningu sem Alþingi greiðir nú atkvæði. Fari svo eru undirstöður lýðræðisins í hættu.
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun
„Öllum er fkn drull, haltu kjafti“ Bríet Bragadóttir,Hjördís Lára D. Ingólfsdóttir,Kristjana Anna Dagnýjardóttir Skoðun
Hvernig getum við gert Ísland að eftirsóttum stað fyrir barnafjölskyldur? Birgitta Sigurðardóttir Skoðun