Lífið

Drukku sextán þúsund bjóra

jens fjalar skaptason Formaður Stúdentaráðs vonast eftir góðu veðri á Októberfest í ár. Sextán þúsund bjórar voru drukknir í fyrra.
jens fjalar skaptason Formaður Stúdentaráðs vonast eftir góðu veðri á Októberfest í ár. Sextán þúsund bjórar voru drukknir í fyrra.

Sextán þúsund bjórar voru drukknir á Októberfest Háskóla Íslands á síðasta ári og verða þeir vafalítið ekki færri í ár. Hátíðin núna verður haldin fyrr en venjulega, eða 23. til 25. september. Ástæðan er meðal annars hið slæma veður sem hefur verið á hátíðinni undanfarin ár.

„Í fyrra lentum við í stormi og áttum í miklum erfiðleikum með að halda tjaldinu niðri. Við þurftum að færa tjaldið við hliðina á aðalbyggingunni og umkringja það með rútum til að takmarka vindinn. Þetta voru mikil átök,“ segir Jens Fjalar Skaptason, formaður Stúdentaráðs. „Við ætlum að freista þess að ná betra veðri í ár.“

Dagskrá hátíðarinnar hefst á Ring Rokk-tónleikunum fimmtudaginn 23. september. Þar stíga á svið Hydrophobic Starfish, Of Monsters And Men, Moses Hightower, Ourlives, Benny Crespo"s Gang, Árstíðir, Lára Rúnars, Mammút og 200.000 naglbítar.

Á meðal fleiri viðburða á hátíðinni verður mottu- og búningakeppni, auk þess sem jóðlarar og lúðrasveit láta ljós sitt skína.

Í fyrra mættu 2.500 manns á fimmtudeginum og seldist bjórinn fjórum sinnum upp. Þá seldist upp í forsölu og því má búast við miklum atgangi í miðasölunni sem hefst í dag innan veggja Háskóla Íslands. Armbandið kostar 2.900 krónur.

„Við höfum ákveðið að kíkja ekkert á veðurspána strax. Við kíkjum á þetta í næstu viku og vonum það besta,“ segir Jens. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×