Lífið

Vill fá launin sín

Fær ekki laun Adrien Brody var svikinn af ítölskum framleiðendum um laun upp á þrjár milljónir dala.
Fær ekki laun Adrien Brody var svikinn af ítölskum framleiðendum um laun upp á þrjár milljónir dala.

Óskarsverðlaunahafinn Adrien Brody stendur nú í miklu stappi við ítalska kvikmyndaframleiðendur og reynir að fá lögbann á hryllingsmyndina Giallo.

Leikstjóri myndarinnar er Dario Argento, heimsfrægur í hryllingsmyndageiranum, og hafði Brody lengi dreymt um að vinna með honum.

Tækifærið kom með Giallo en Brody hefur hins vegar enn ekki fengið greitt fyrir leik sinn. Samkvæmt vefsíðu Empire virðist myndin sjálf vera mesti hryllingurinn því hún þykir skelfileg og hefur verið slátrað af gagnrýnendum, var meðal annars send beint á DVD í Ameríku en þarlendir unglingar hafa löngum verið ginnkeyptir fyrir hryllingi.

Brody krefst þriggja milljóna dala og vill blátt bann á dreifingu myndarinnar þar til skuldin hefur verið greidd. Brody segir að framleiðendur myndarinnar hafi ítrekað logið að honum, hann hafi til að mynda hætt á einum tímapunkti sökum þess að myndin var ekki fullfjármögnuð eins og framleiðendurnir höfðu lýst yfir.

Þeir fengu Brody síðan til að koma aftur með loforðum um að dreifingarsamningar hefðu gefið vel af sér. En þau loforð virtust líka hafa verið byggð á sandi. Talið er líklegt að Brody verði að bíða ansi lengi áður en næst í skottið á framleiðendum myndarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×