Körfubolti

Sigrún: Vörnin og liðsheildin skiluðu þessum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigrún Ámundadóttir í leiknum í kvöld.
Sigrún Ámundadóttir í leiknum í kvöld. Mynd/Stefán
Sigrún Ámundadóttir lék vel fyrir Hamarsliðið í kvöld í 92-79 sigri á hennar gömlu félögum í KR-liðinu í fyrsta úrslitaleik KR og Hamars um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna.

„Við reyndum bara að einbeita okkur að því sem við ætluðum að gera og lögðum alla áherslu á að spila góða vörn. Vörnin og liðsheildin skiluðu þessum sigri hjá okkur í dag," sagði Sigrún sem var með 18 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar í leiknum.

„KR er með frábært lið þannig að við þurfum að vera mjög einbeittar til þess að ná að stoppa þær. Það tókst því við vorum með hundrað prósent einbeitingu í þessum leik," sagði Sigrún sem fann sig vel.

„Ég kann vel við mig í KR-heimilinu og ég held að það hafi hjálpað mikið til, sagði Sigrún sem hitti úr 8 af 12 skotum sínum í leiknum þar af fóru bæði þriggja stiga skotin hennar rétta leið.

Hamar er nú búið að vinna þrjá síðustu leiki sína með samtals 68 stig mun og næsti leikur liðsins er á heimavelli á mánudagskvöldi.

"Við förum í hvern leik til þess að vinna hann, markmiðin hafa náðst í síðustu leikjum og við vonumst bara til þess að það haldi áfram. Tapið í framlengingunni á móti Keflavík sýndi okkur að við þurfum að hafa fyrir hlutnum og það hjálpaði okkur í gang," sagði Sigrún að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×