Tónlist

Lights on the Highway safnar fyrir London

Piltarnir í Lights safna í Londonbaukinn á Dillon á morgun.
Piltarnir í Lights safna í Londonbaukinn á Dillon á morgun.

Hljómsveitin Lights on the Highway er í mikilli sveiflu þessa dagana. Lagið Leiðin heim er í fyrsta sæti á vinsældarlista Rásar 2 þriðju vikuna í röð og leiðin er sett á meikið í London.

Á sunnudag heldur sveitin í sjö daga reisu til London þar sem spilað verður á nokkrum tónleikum, bæði rafmögnuðum og órafmögnuðum. Til þess að eiga fyrir þessu ætlar hún að troða upp á Dillon á morgun og verður þar boðið upp á órafmagnað sett. Hljómsveitin kemur síðan aftur fram á Rósenberg á föstudaginn.

Þegar heim er komið ætla piltarnir í sveitinni síðan að setjast við skriftir og semja fleiri lög á íslensku fyrir sumarvertíðina. Smellurinn Leiðin heim er þeirra fyrsta lag á ástkæra ylhýra.

Tónleikarnir á Dillon á morgun hefjast klukkan 22 og er 20 ára aldurstakmark. Miðaverð er 500 krónur en frjáls framlög í ferðasjóð eru vel þegin. Tónleikarnir á Rósenberg á föstudag hefjast að sama skapi klukkan 22.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×