„Við erum ferlega ánægðir með þetta, eiginlega bara allir að springa úr monti hvað þetta er gott,“ segir tónlistarmaðurinn Gunnar Lárus Hjálmarsson, miklu þekktari sem Dr. Gunni í samtali við Vísi. Nýja platan er tólf laga og kemur sem vinýl-plata og streymi en áður hefur sveitin gefið frá sér plöturnar Nei ókei (2021) og Stóri hvellur (2003).
Langar til Grænlands
Platan var tekin upp á Stöðvarfirði, Suðureyri og í Reykjavík og sá Árni Hjörvar um upptökur og pródúksjón. Lögin spanna frá léttleikandi poppi yfir í þynslarokk. Ástand heimsins, sífellt stríð og kröfur á meðalplebba um endurvinnslu, ónægur svefn og ótímabær þvaglát eru meðal yrkisefna, enda eru meðlimir sveitarinnar alltof gamlir til að bulla eitthvað um ást, hvað þeir séu ríkir og annan misskilning.
„Við höfum aldrei spilað saman úti fyrir landssteinana jafnvel þó okkur dauðlangi til þess. Við þurfum eiginlega að fara að virkja einhver samnorræn sambönd því við ætlum ekki langt,“ segir Dr. Gunni. Hann segir hljómsveitina þrá að spila í Grænlandi og Færeyjum.
„En við byrjum þetta að minnsta kosti hérna heima, með hlustunarpartýi í 12 tónum í dag og svo á Akureyri á morgun að ógleymdum útgáfutónleikum á Hrekkjavöku 31. október í Iðnó. Þangað hvetjum við auðvitað alla til þess að mæta í búningum!“