Er réttlátt að fjölga í LÍÚ? Þorsteinn Pálsson skrifar 13. febrúar 2010 06:00 Réttlæti er lykilhugtak í þrætunni um fiskveiðistjórnunina. Forystumenn núverandi ríkisstjórnar lögleiddu gildandi kerfi fyrir tveimur áratugum. Þeir hafa síðan sannfært meirihluta þjóðarinnar um að gjörð þeirra á sínum tíma hafi verið ranglát. Nú boða þeir réttlæti. Eftir því sem næst verður komist felst ranglætið í því hversu fáir nýta fiskveiðiauðlindina í ljósi þess að hún er skilgreind sem sameign þjóðarinnar. Þetta er alveg gilt umhugsunarefni. Réttlætið getur hins vegar farið eftir því af hvaða bæjarhellu er horft. Ríkisstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu að rétta leiðin sé að fjölga þeim sem stunda útgerð. Ekki er ljóst hversu mikil sú fjölgun þarf að vera til að fullu réttlæti sé náð. Nokkuð ljóst er hins vegar að því fleiri sem félagsmenn í LÍÚ verða þeim mun meira verður réttlætið eftir þessum kvarða. Eftir loforði ríkisstjórnarinnar á enginn af núverandi félagsmönnum LÍÚ að fara á hausinn vegna aðgerða hennar. Það þýðir að skattgreiðendur verða að borga fyrir að fjölga í LÍÚ. Vandinn er sá að þetta er ranglæti en ekki réttlæti þegar horft er af bæjarhóli skattgreiðenda. Það eru almannahagsmunir að verja skattgreiðendurna og eigendur auðlindarinnar. Krafan um fjölgun í LÍÚ er hins vegar varðstaða um sérhagsmuni. Þegar forystumenn núverandi ríkisstjórnar lögleiddu fiskveiðistjórnunarkerfið snerust þeir á sveif með almannahagsmunum. Þeir voru því ekki jafn ranglátir þá eins og þeir sjálfir vilja vera láta nú. Réttlæti gagnvart eigendum fiskveiðiauðlindarinnar felst fyrst og fremst í því að tryggja þjóðhagslega hagkvæman rekstur greinarinnar. Það gerðist 1990. Eftir það ár fækkaði félagsmönnum LÍÚ og ekki þurfti lengur að flytja peninga frá almenningi til útgerðarmanna með stöðugu gengissigi og skattpeningum í gegnum millifærslusjóði. Siðferðileg gildi og hólfaskipting Ýmsar þeirra bóka sem skrifaðar hafa verið um hrunið varpa ljósi á viðfangsefni sem mikilvægt er að glíma við í endurreisninni. Þorkell Sigurlaugsson ritaði til að mynda merka bók um hrunið og stjórnun fyrirtækja. Hún dregur skýrt fram brotalamir í starfsháttum stjórna fyrirtækja í aðdraganda hrunsins. Þar eru sýndir brestir sem þarf að berja í. Viðfangsefnið lýtur að siðferðilegum og klassískum gildum í fyrirtækjastjórnun. Merkilegt er að félög atvinnufyrirtækja skuli ekki hafa tekið þessa bók til almennrar umræðu. Enginn vafi er á að opin hreinskiptin umræða um þau efni á vettvangi samtaka fyrirtækjanna getur hjálpað þeim að vinna traust almennings í landinu á ný. Þess er þörf. Ólafur Arnarson lýsir í bók sinni átökum í viðskiptalífinu og pólitíkinni. Bókin var ekki með öllu óumdeild. Það sem helst má læra af henni er hvernig þjóðfélagsumræðan tók á siðferðilegum álitaefnum. Atvinnulífið skiptist upp í hólf. Í umræðunni var ekki að öllu jöfnu greint á milli þess sem rétt var og rangt eftir því hvað gert var heldur fremur eftir hinu hver átti hlut að máli eða úr hvaða hólfi hann kom. Í æviminningum Sigurðar prests og alþingismanns frá Vigur er útskýrt hvernig Jónas frá Hriflu innleiddi þess háttar umræðuhefð um atvinnulífið á öndverðri síðustu öld. Endurtekningin var óholl. Siðferðilega er nauðsynlegt að lyfta umræðunni upp úr þessu fari eigi endurreisnin að takast. Margt bendir til að það hafi enn ekki gerst. Nýtt mat á stöðu Íslands Bók Styrmis Gunnarssonar um hrunið er um margt athyglisverð. Hann kemst að mjög afdráttarlausri niðurstöðu um einangrun Íslands. Sennilega er þó ofmælt að Ísland sé umsetið. Það breytir ekki hinu að eitt af stóru viðfangsefnunum sem þjóðin þarf að glíma við í kjölfar hrunsins er að losa landið úr einangrun. Í þessu ljósi þarf Ísland að endurmeta stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Styrmir segir réttilega að við það endurmat eigum við ekki að þykjast vera meiri en við erum. Stakk á að sníða eftir vexti. Tvær leiðir eru færar við þetta endurmat. Önnur er sú grundvalla utanríkisstefmnuna á tvíhliða samskiptum við tiltölulega fá ríki. Þá leið vill höfundur fara. Hin er sú að grundvalla utanríkisstefnuna á þátttöku í fjölþjóðasamtökum. Það er meir í samræmi við þau sjónarmið sem að baki bjuggu þegar Ísland gekk í NATO. Mikilvægi þess að fá samkeppnishæfa mynt er augljósasta röksemdin og brýnasta ástæðan fyrir því að halda áfram á þeirri braut fjölþjóðasamstarfs sem farið var inn á fyrir sextíu árum. Sömu pólitísku sjónarmið og þá eru enn í gildi. Endurmatið á því að leiða til nýrra skrefa á þeirri braut en ekki fráhvarfs. Miklu stærri þjóðir en við telja sig ekki hafa bolmagn til að grundvalla utanríkisstefnuna á tvíhliða samskiptum og samningum. Aðalatriðið er að hrunið kallar á nýtt mat á stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu. Það er í bestu samræmi við smæð okkar að velja leið fjölþjóðasamstarfs eins og aðrar fullvalda smáþjóðir í Evrópu hafa gert. Þess vegna á að leiða í ljós hvað samningar um Evrópusambandsaðild fela í sér. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Slökkvistarfið Eiríkur Hjálmarsson Skoðun Hvatning til heilbrigðisráðherra Halla Þorvaldsdóttir Skoðun Fæðuöryggi þjóðar, sláum í klárinn, togum í tauminn Helgi Eyleifur Þorvaldsson Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Agaleysi í íslenskum skólum - Kennarar þurfa valdið til baka Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir Skoðun Verðmætasköpun með hugvitið að vopni Ingvar Hjálmarsson Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun
Réttlæti er lykilhugtak í þrætunni um fiskveiðistjórnunina. Forystumenn núverandi ríkisstjórnar lögleiddu gildandi kerfi fyrir tveimur áratugum. Þeir hafa síðan sannfært meirihluta þjóðarinnar um að gjörð þeirra á sínum tíma hafi verið ranglát. Nú boða þeir réttlæti. Eftir því sem næst verður komist felst ranglætið í því hversu fáir nýta fiskveiðiauðlindina í ljósi þess að hún er skilgreind sem sameign þjóðarinnar. Þetta er alveg gilt umhugsunarefni. Réttlætið getur hins vegar farið eftir því af hvaða bæjarhellu er horft. Ríkisstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu að rétta leiðin sé að fjölga þeim sem stunda útgerð. Ekki er ljóst hversu mikil sú fjölgun þarf að vera til að fullu réttlæti sé náð. Nokkuð ljóst er hins vegar að því fleiri sem félagsmenn í LÍÚ verða þeim mun meira verður réttlætið eftir þessum kvarða. Eftir loforði ríkisstjórnarinnar á enginn af núverandi félagsmönnum LÍÚ að fara á hausinn vegna aðgerða hennar. Það þýðir að skattgreiðendur verða að borga fyrir að fjölga í LÍÚ. Vandinn er sá að þetta er ranglæti en ekki réttlæti þegar horft er af bæjarhóli skattgreiðenda. Það eru almannahagsmunir að verja skattgreiðendurna og eigendur auðlindarinnar. Krafan um fjölgun í LÍÚ er hins vegar varðstaða um sérhagsmuni. Þegar forystumenn núverandi ríkisstjórnar lögleiddu fiskveiðistjórnunarkerfið snerust þeir á sveif með almannahagsmunum. Þeir voru því ekki jafn ranglátir þá eins og þeir sjálfir vilja vera láta nú. Réttlæti gagnvart eigendum fiskveiðiauðlindarinnar felst fyrst og fremst í því að tryggja þjóðhagslega hagkvæman rekstur greinarinnar. Það gerðist 1990. Eftir það ár fækkaði félagsmönnum LÍÚ og ekki þurfti lengur að flytja peninga frá almenningi til útgerðarmanna með stöðugu gengissigi og skattpeningum í gegnum millifærslusjóði. Siðferðileg gildi og hólfaskipting Ýmsar þeirra bóka sem skrifaðar hafa verið um hrunið varpa ljósi á viðfangsefni sem mikilvægt er að glíma við í endurreisninni. Þorkell Sigurlaugsson ritaði til að mynda merka bók um hrunið og stjórnun fyrirtækja. Hún dregur skýrt fram brotalamir í starfsháttum stjórna fyrirtækja í aðdraganda hrunsins. Þar eru sýndir brestir sem þarf að berja í. Viðfangsefnið lýtur að siðferðilegum og klassískum gildum í fyrirtækjastjórnun. Merkilegt er að félög atvinnufyrirtækja skuli ekki hafa tekið þessa bók til almennrar umræðu. Enginn vafi er á að opin hreinskiptin umræða um þau efni á vettvangi samtaka fyrirtækjanna getur hjálpað þeim að vinna traust almennings í landinu á ný. Þess er þörf. Ólafur Arnarson lýsir í bók sinni átökum í viðskiptalífinu og pólitíkinni. Bókin var ekki með öllu óumdeild. Það sem helst má læra af henni er hvernig þjóðfélagsumræðan tók á siðferðilegum álitaefnum. Atvinnulífið skiptist upp í hólf. Í umræðunni var ekki að öllu jöfnu greint á milli þess sem rétt var og rangt eftir því hvað gert var heldur fremur eftir hinu hver átti hlut að máli eða úr hvaða hólfi hann kom. Í æviminningum Sigurðar prests og alþingismanns frá Vigur er útskýrt hvernig Jónas frá Hriflu innleiddi þess háttar umræðuhefð um atvinnulífið á öndverðri síðustu öld. Endurtekningin var óholl. Siðferðilega er nauðsynlegt að lyfta umræðunni upp úr þessu fari eigi endurreisnin að takast. Margt bendir til að það hafi enn ekki gerst. Nýtt mat á stöðu Íslands Bók Styrmis Gunnarssonar um hrunið er um margt athyglisverð. Hann kemst að mjög afdráttarlausri niðurstöðu um einangrun Íslands. Sennilega er þó ofmælt að Ísland sé umsetið. Það breytir ekki hinu að eitt af stóru viðfangsefnunum sem þjóðin þarf að glíma við í kjölfar hrunsins er að losa landið úr einangrun. Í þessu ljósi þarf Ísland að endurmeta stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Styrmir segir réttilega að við það endurmat eigum við ekki að þykjast vera meiri en við erum. Stakk á að sníða eftir vexti. Tvær leiðir eru færar við þetta endurmat. Önnur er sú grundvalla utanríkisstefmnuna á tvíhliða samskiptum við tiltölulega fá ríki. Þá leið vill höfundur fara. Hin er sú að grundvalla utanríkisstefnuna á þátttöku í fjölþjóðasamtökum. Það er meir í samræmi við þau sjónarmið sem að baki bjuggu þegar Ísland gekk í NATO. Mikilvægi þess að fá samkeppnishæfa mynt er augljósasta röksemdin og brýnasta ástæðan fyrir því að halda áfram á þeirri braut fjölþjóðasamstarfs sem farið var inn á fyrir sextíu árum. Sömu pólitísku sjónarmið og þá eru enn í gildi. Endurmatið á því að leiða til nýrra skrefa á þeirri braut en ekki fráhvarfs. Miklu stærri þjóðir en við telja sig ekki hafa bolmagn til að grundvalla utanríkisstefnuna á tvíhliða samskiptum og samningum. Aðalatriðið er að hrunið kallar á nýtt mat á stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu. Það er í bestu samræmi við smæð okkar að velja leið fjölþjóðasamstarfs eins og aðrar fullvalda smáþjóðir í Evrópu hafa gert. Þess vegna á að leiða í ljós hvað samningar um Evrópusambandsaðild fela í sér.
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun
Áskorun til Handknattleikssambands Íslands: Ekki keppa við lið Ísraels um sæti í Evrópumóti kvenna í handbolta í apríl 2025 Hjálmtýr Heiðdal Skoðun