Það var haldinn krísufundur hjá stjórn þýska úrvalsdeildarliðsins Schalke í gærkvöldi þar sem framtíð þjálfarans, Felix Magath, var rædd.
Greidd voru atkvæði um það innan stjórnar hvort reka ætti Magath en gengi liðsins í vetur hefur verið hörmulegt.
Þo svo gengið hafi verið ömurlegt hafa stjórnarmenn ekki misst trú á Magath því atkvæðagreiðslan fór 19-12 honum í hag. Hann fær því að halda áfram með liðið.
Magath fundaði einnig með stjórninni og sýndi henni hvernig hann ætlaði sér að koma liðinu aftur í gang.
"Það er eðlilegt að stjórnin fundi um þessi mál. Ég veit ekki hvort ég hef stuðning allra í stjórninni en niðurstaðan er jákvæð," sagði Magath.