Lífið

Dúett hjálpar geimveru heim

Heit tvenna Simon Pegg og Nick Frost eru að gera stjörnumprýdda gamanmynd um týnda geimveru.
Heit tvenna Simon Pegg og Nick Frost eru að gera stjörnumprýdda gamanmynd um týnda geimveru.

Samkvæmt vefsíðu Empire-kvikmyndaritsins eru Simon Pegg og Nick Frost með nýja gamanmynd í smíðum. Pegg og Frost slógu eftirminnilega í gegn í kvikmyndinni Shaun of the Dead sem þótti drepfyndin. Hot Fuzz fylgdi í kjölfarið sem var ekkert síðri og nú er semsagt ný mynd með þessum gríndúett í smíðum.

Myndin ku fjalla um tvo Breta sem ákveða að skella sér í vegaferð um Bandaríkin. Aðalmálið er þó að komast á nördahátíðina Comic Con en þangað safnast allir þeir fullorðnu karlmenn sem hafa einlægan áhuga á myndasögum og öllu sem tengist þeim.

Bretarnir tveir eru forfallnir geimverufíklar og bregður heldur betur í brún þegar þeir keyra fram hjá hinu fræga svæði númer 51 en þar segir sagan að bandaríski herinn geymi nokkuð áþreifanlegar sannanir um tilvist geimvera.

Þeir rekast nefnilega á geimveruna Paul sem þeir ákveða að hjálpa að komast til síns heima. Seth Rogen talar fyrir geimveruna Paul en meðal annarra leikara má nefna Sigourney Weaver, Jason Bateman og Blythe Danner. Áætluð frumsýning er 18. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×