Körfubolti

Keflavíkurkonur fá stórt próf á móti toppliði KR í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingurinn Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir.
KR-ingurinn Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir. Mynd/

A- og B-deild Iceland Express deildar kvenna hefjast í kvöld með fjórum leikjum og stórleikur kvöldsins er á milli KR og Keflavík í DHL-höllinni þar sem Keflavíkurkonur fá stórt próf.

Keflavíkurkonur hafa verið á miklu skriði upp á síðkastið og hafa unnið fjóra síðustu leiki sína með samtals 72 stigum eða 18 stigum að meðaltali. Þær mæta nú KR sem hefur unnið alla 14 deildarleiki tímabilsins þar af 16 stiga (62-46) og 15 stiga (70-55) sigra í fyrri innbyrðisleikjum liðanna.

Eitt af einvígum kvöldsins verður örugglega á milli Kristi Smith, bandaríska bakvarðarins í Keflavík, og Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur sem er að margra mati besti varnarmaður deildarinnar.

Guðrún Gróa hélt Kristi í 14 stigum og 28 prósent skotnýtingu (5 af 18) í síðasta leik liðanna en Smith hefur síðan þá skorað 26,5 stig að meðaltali og hitt úr 59 prósent skota sinna í fjórum sigurleikjum Keflavíkur í röð.

Aðrir leikir kvöldsins eru á milli Grindavíkur og Hamars í A-deildinni og svo spila Njarðvík-Snæfell og Haukar-Valur í B-deildinni. Allir leikirnir hefjast klukkan 19.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×