Michael Ballack mun ekki spila meira á árinu þar sem meiðsli hans eru verri en óttast var í fyrstu.
Ballack fótbrotnaði í leik með Bayer Leverkusen gegn Hannover fyrir mánuði síðan og þarf að vera í gifsi í sex vikur.
„Ég vona að Michael Ballack muni snúa aftur í liðið þegar hann hefur náð fullum styrk og verði með okkur á síðari hluta tímabilsins," sagði Jupp Heynckes, stjóri Leverkusen.
Ballack missti af HM í sumar vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í leik með hans gamla félagi, Chelsea, í vor.