Guðmann Þórisson skrifaði í gær undir tveggja ára samning við norska B-deildarliðið Nybergsund en hann hefur verið að æfa með liðinu að undanförnu.
Guðmann hefur leikið með Breiðabliki allan sinn feril en hann er 23 ára gamall. Samningur hans við Breiðablik rann hins vegar út um áramótin og því var honum frjálst að fara til Nybergsund án greiðslu.
Guðmann á að baki 49 leiki í efstu deild hér á landi og hann hefur skorað í þeim þrjú mörk. Hann á einnig að baki einn leik með A-landsliði Íslands sem og fjölda leikja með yngri landsliðum Íslands.
Viktor Bjarki Arnarsson lék með Nybergsund í sumar en liðið varð í 9. sæti norsku B-deildarinnar.