Cristiano Ronaldo á ekki von á því að hann verði hjá Real Madrid þar til að knattspyrnuferli hans lýkur. Ronaldo var keyptur til Real frá Manchester United í sumar fyrir metfé.
Ronaldo sagði í samtali við spænska fjölmiðla að knattspyrnumenn séu hjá félögum til að ná ákveðnum markmiðum og snúa sér svo annað.
„Ef maður hefur unnið allt sem hægt er að vinna þarf maður að breyta til og það er það sem gerðist hjá mér þegar ég var hjá United," sagði Ronaldo.
„Ég vildi fá að prófa eitthvað nýtt og setja mér ný markmið. Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun sem ég tók og Alex Ferguson skildi hana vel. Við tölumst enn við í dag."
„Ég hafði þá ósk að komast til Madrídar í nokkur ár. En ég sé ekki fyrir mér að ég verði enn hér þegar ég verð fertugur."