Peter Crouch, framherji Tottenham, var himinlifandi eftir sigur Spurs á Werder Bremen í kvöld en með sigrinum komst Spurs í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Crouch skoraði þriðja mark Spurs í kvöld eftir góðan undirbúning frá Aaron Lennon.
"Þetta er frábært afrek hjá okkur og við ætlum að láta til okkar taka í útsláttarkeppninni," sagði Crouch.
"Liðið spilaði frábærlega í kvöld sem og í allri keppninni. Við höfum spilað virkilega vel og eigum skilið að fara áfram í þessari keppni. Þarna viljum við vera, með öllum stærstu liðum Evrópu."