Gunnar Berg Viktorsson verður í banni á morgun þegar að Haukar og Valur mætast í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta á Ásvöllum.
Gunnar Berg fékk að líta rauða spjaldið í blálok venjulegs leiktíma þegar liðin mættust í Vodafone-höllinni í gær eftir að hann fór í andlitið á Fannari Þór Friðgeirssyni, leikmanni Vals.
Valsmenn unnu svo leikinn eftir framlengingu, 32-30, og jöfnuðu þar með metin í einvígi liðanna í 2-2.
Aganefnd HSÍ vísar í eftirfarandi ákvæði í reglugerð HSÍ um agamál í úrskurði sínum, þar sem fram kemur að leikmaður skuli dæmdur í eins leiks bann „brjóti [hann] gróflega af sér á síðustu mínútu leiks í þeim tilgangi að hafa áhrif á úrslit leiks."