Fótbolti

Eyjólfur samningslaus hjá GAIS

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Héðinsson.
Eyjólfur Héðinsson. Mynd/Heimasíða GAIS
Eyjólfur Héðinsson er nú að ljúka sínum samningi við sænska úrvalsdeildarfélagið GAIS. Tímabilinu lauk um helgina og slapp GAIS naumlega við fall úr deildinni.

„Ég mun skoða þessi mál með umboðsmanni í vikunni og þá kemur þetta betur í ljós," sagði Eyjólfur í samtali við Vísi í dag.

„Ég get verið hér áfram og mér skilst einnig að það sé áhugi frá öðrum liðum á Norðurlöndunum. En ég veit ekki hvað mun gerast."

Eyjólfur hefur verið í fjögur ár hjá GAIS og alltaf fengið mikið að spila. „Ég hef verið í byrjunarliðinu nánast alltan þennan tíma og hef öðlast dýrmæta reynslu hér."

„Ég get þó ekki sagt að við séum ánægðir með tímabilið enda þrettánda sætið ekki það sem við stefndum að."

Hann segir að vel komi til greina að reyna fyrir sér annars staðar. „Okkur líður reyndar vel í Gautaborg og getum vel hugsað okkur að vera hér áfram. En það væri líka gaman að prófa eitthvað nýtt, eins og að vera hjá liði sem er ekki alltaf í þessu miðjumoði sem GAIS hefur verið í. Það væri gaman að fá að berjast um titla."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×