Karlalið FH í handbolta er nú statt í Eskilstuna í Svíþjóð þar sem liðið tekur þátt í fjögurra liða æfingamóti á vegum sænska úrvalsdeildarliðsins GUIF. Þjálfari GUIF er einmitt Íslendingurinn Kristján Andrésson.
Auk FH og GUIF taka þátt í mótinu norsku bikarmeistararnir í Elverum, sem er í 2.-3. sæti norsku deildarinnar og LIF Lindesberg, sem er í 8.-9. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. Með liði Elverum leikur einmitt Sigurður Ari Stefánsson.
FH leikur sinn fyrsta leik á mótinu í dag þegar Hafnarfjarðarliðið spilar við sænska liðið Lindersberg.
FH-liðið er mikið breytt frá síðasta leik fyrir jólafrí þar sem mikil meiðsli hrjá hópinn auk þess sem Ólafur Guðmundsson er á fullu með landsliðinu.
Á sjúkrabekknum eru þeir Bjarni Fritzson og Hermann Björnsson, sem fóru ekki með liðinu til Svíþjóðar. Auk þess hvíla í dag vegna smávægilegra meiðsla þeir Ólafur Gústavsson, Ásbjörn Friðriksson og Bjarki Sigurðsson. Þeir munu þó að öllum líkindum taka þátt í næstu leikjum.