Körfubolti

Kristrún: KR kemur ekki aftur svona í næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristrún Sigurjónsdóttir átti frábæran leik í DHL-höllinni í kvöld.
Kristrún Sigurjónsdóttir átti frábæran leik í DHL-höllinni í kvöld. Mynd/Stefán
Kristrún Sigurjónsdóttir átti frábæran leik í DHL-höllinni í kvöld þegar Hamar vann 92-79 sigur á KR í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna.

„Þetta var frábær leikur þar sem við komum mjög einbeittar til leiks. KR á ekki eftir að koma aftur svona í næsta leik þannig að við verðum að passa okkur á því að vera búinn að setja hausinn aftur á fyrir hann," sagði Kristrún sem var með 27 stig og 7 stoðsendingar í leiknum þar af gerði hún 20 stig í fyrri hálfleik.

Hamar fékk ekki langa hvíld eftir oddaleikinn á móti Hamar en það var ekki nein þreytumerki að sjá á liðinu.

„Það þýðir ekkert núna. Þegar þú ert kominn í úrslitin þá er ekki tími til að vera þreyttur," sagði Kristrún.

Hamar skoraði 92 stig í kvöld á besta varnarlið deildarinnar.

„Þær fóru að pressa okkur og okkur gekk vel að leysa pressuna sem gaf okkur mörg opin sniðskot," sagði Kristrún og bætti við:

„Það gengur vel hjá okkur núna en við vitum að það er ekkert gefins í þessu og það er nóg af leikjum eftir. Þetta á bara eftir að vera erfiðara," sagði Kristrún að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×