Körfubolti

Ágúst: Við erum með marga leikmenn sem geta skorað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, var að sjálfsögðu ánægður með öruggan þrettán stiga sigur á heimavelli deildarmeistaranna í KR í fyrsta leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna í kvöld.

„Þeim gekk mjög vel að dekka Koren og klippa hana alveg úr leiknum og það voru aðrir sem stigu fram," sagði Ágúst og það skipti heldur ekki máli að pólski miðherjinn Julia Demirer var lítið inn í leiknum framan af.

„Julia var heldur ekki að fá boltann nægilega mikið og þær reyndu að stíla inn á það að breyta okkar leik. Okkar styrkleiki er meðal annars sá að við erum með marga leikmenn sem geta skorað og það sýndi sig í kvöld þar sem það eru fjórir leikmenn hjá okkur yfir fjórtán stig og sá fimmti er með níu stig. Kaninn okkar er síðan bara að skora tvö stig og hún gæti þess vegna sett 30 stig í næsta leik," sagði Ágúst.

„Núna lítur þetta bara út fyrir okkur eins og nýtt einvígi þar sem þarf að vinna tvo leiki. Við fögnum þessu í kvöld en svo reynum við að koma okkur niður á jörðina á morgun og reyna að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Það er fullt sem við þurfum að laga og auðvitað þurfum við að vinna í því hvernig við ætlum að koma Koren inn í leikinn. Við förum í það um helgina," sagði Ágúst en leikur tvö er í Hveragerði á mánudagskvöldið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×