Lífið

Svaf hjá þremur konum á dag

Mick Hucknall var vinsæll hjá kvenþjóðinni þegar hann var upp á sitt besta.
Mick Hucknall var vinsæll hjá kvenþjóðinni þegar hann var upp á sitt besta.

Söngvarinn Mick Hucknall hefur beðist afsökunar á framferði sínu á níunda áratugnum þegar hann svaf hjá yfir eitt þúsund konum á þriggja ára tímabili.

„Rauðhærður maður er vanalega ekki talinn vera kyntákn," segir Hucknall í viðtali við The Guardian. „Þegar ég var frægur fór þetta úr böndunum. Á milli 1985 og 1987 svaf ég hjá um þremur konum á dag, á hverjum degi. Ég sagði aldrei nei. Þetta var það sem ég vildi fá út úr því að vera poppstjarna. Ég lifði drauminn og það eina sem ég sé eftir er að ég særði margar góðar stelpur," segir hann.

Hucknall heldur því fram að lauslæti sitt megi rekja til ástleitni sem sé til komin af því þegar móðir hans yfirgaf hann þegar hann var þriggja ára.

„Þetta var fíkn sem varð til þess að ég fór inn á dökka tímabilið mitt frá 1996 til 2001. Þá komst ég nærri ræsinu - ég var meira í því að drekka en veiða konur."

Á endanum kveðst Hucknall hafa orðið leiður á kynlífstímabilinu, þar sem hann hafi aldrei fengið þá tilfinningalegu fullnægingu sem hann þarfnaðist.

Mick Hucknall hefur verið umdeildur í tónlistarheiminum; hann er maður sem margir elska að hata. Hann segir að eftir 25 ára feril og yfir 50 milljónir seldra platna ætli hann að leggja nafnið Simply Red á hilluna.

„Ég get gert það sem ég vil núna."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×