Veigar Páll Gunnarsson skoraði jöfnunarmark Stabæk í fyrri leik liðsins á móti Dnepr frá Hvíta-Rússlandi í undankeppni Evrópudeildarinnar í dag. Hann klikkaði hinsvegar á tveimur vítum í leiknum sem fram fór á heimavelli Stabæk.
Veigar Páll skoraði jöfnunarmarkið sitt á 53. mínútu þegar hann fylgdi á eftir þegar markvörður Dnepr varði frá honum vítaspyrnu. Átta mínútum síðar fékk Veigar Páll aðra vítaspyrnu en skaut þá yfir markið.
Dnepr-liðið komst tvisvar yfir í fyrri hálfleik en Jørgen Skjelvik jafnaði í 1-1 í millitíðinni. Veigar Páll fékk fjölda færa í leiknum og átti meðal annars skot í stöngina í lok fyrri hálfleiks.
Veigar Páll og Bjarni Ólafur Eiríksson spiluðu allan leikinn með Stabæk en Pálmi Rafn Pálmason sat allan tímann á bekknum.

