Handbolti

Snorri Steinn og Arnór danskir bikarmeistarar með AG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason eru danskir bikarmeistarar í handbolta.
Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason eru danskir bikarmeistarar í handbolta. Mynd/Heimasíða AG
AG Kaupmannahöfn vann sinn fyrsta titil í dag þegar liðið tryggði sér sigur í dönsku bikarkeppninni með sex marka sigri á Århus Håndbold í úrslitaleik, 26-20, en leikurinn fór fram í NRGi höllinni í Árósum.

Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason leika báðir með liði AG Kaupmannahöfn. Arnór varð þarna bikarmeistari annað árið í röð en hann vann titilinn með FC Kaupmannahöfn fyrir einu ári síðan.

AG Kaupmannahöfn hefur ekki tapað leik á tímabilinu en liðið komst í úrslitaleikinn eftir dramatískan eins marks sigur á Skjern í framlengdum undanúrslitaleik í gær.

Århus Håndbold var með frumkvæðið í byrjun leiks og 10-9 yfir þegar átta mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. AG-liðið skoraði hinsvegar fjögur síðustu mörk hálfleiksins og var því 13-10 yfir í leikhléi.

AG skoraði fimm af fyrstu sex mörkum seinni hálfeiks og komst þar með í 18-11. AG var síðan með góð tök á leiknum eftir það og vann að lokum sex marka sigur, 26-20.

Fyrr í dag töpuðu Rut Jónsdóttir og félagar í Team Tvis Holstebro 28-36 fyrir Viborg HK í bikaúrslitaleik kvenna. Rut náði ekki að skora í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×