Lífið

Páll syngur óð til Reykjavíkur

steinn kárason Fyrsta plata umhverfisfrömuðarins Steins Kára er væntanleg í búðir á næstu misserum. fréttablaðið/gva
steinn kárason Fyrsta plata umhverfisfrömuðarins Steins Kára er væntanleg í búðir á næstu misserum. fréttablaðið/gva

Söngvarinn Páll Rósinkrans syngur nýtt Reykjavíkur­lag á væntanlegri plötu umhverfisfrömuðarins Steins Kárasonar. Lagið nefnist Ég heilsa þér Reykjavík og er undir áhrifum frá tónlist sjöunda áratugarins.

„Þetta er óður til konunnar sem maðurinn elskar og óður til borgarinnar sem er Reykjavík,“ segir Steinn, sem er ánægður með framlag Páls. „Þetta er alveg frábært. Hann gerir þetta listavel.“

Steinn segir plötuna mjög persónulega. „Þeir textar sem ég geri koma djúpt úr mínu sálarlífi. Á köflum gæti maður sagt að þetta væri eins og að skrifta hjá kaþólskum presti.“

Upptökur á plötunni hafa staðið yfir undanfarna mánuði. Steinn hefur áður sent frá sér lögin Kominn aftur og Helga himneska stjarna en þetta er fyrsta platan hans. „Þetta hefur alltaf blundað í mér en rétta stundin kom ekki fyrr en núna. Í haust stóð ég uppi atvinnulaus og í staðinn fyrir að leggja árar í bát fór ég í þetta.“

Platan er mjög fjölbreytt því á henni hljómar popp, rokk, þungarokk, ballöður og daður við djass og klassík. Auk Páls Rósinkrans syngja á plötunni Haukur Hauksson, Íris Guðmundsdóttir, Hreindís Ylva, Guðmundur Benediktsson og Steinn sjálfur. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×