Lífið

Frank Hvam með uppistand í Háskólabíói

Sérstakir félagar Frank Hvam kemur til Íslands í heimsókn til Frímanns Gunnarssonar og treður upp á sérstöku skemmtikvöldi í Háskólabíói ásamt þekktum norrænum uppistöndurum.
Sérstakir félagar Frank Hvam kemur til Íslands í heimsókn til Frímanns Gunnarssonar og treður upp á sérstöku skemmtikvöldi í Háskólabíói ásamt þekktum norrænum uppistöndurum.

Frank Hvam verður meðal gesta Frímanns Gunnarssonar á sérstöku uppistandskvöldi þann 29. september í stóra sal Háskólabíós. „Þetta verður brjáluð kvöldstund með Frímanni,“ segir Gunnar Hansson, skapari ólíkindatólsins.

Meðal annarra sem koma fram má nefna Dagfinn Lyngbo frá Noregi og borgarstjórann Jón Gnarr en allir eiga þeir það sameiginlegt að koma fram í nýjum sjónvarpsþætti Frímanns sem frumsýndur verður á Stöð 2 sunnudaginn 19. september.

„Matt Berry, fulltrúi Bretlands í þáttunum, langaði mikið til að koma en gat það ekki vegna anna.“

Gunnar segir uppsetninguna verða svipaða og hjá spjallþáttastjórnendunum Jay Leno og David Letterman. Frímann fái til sín góða gesti í sófa sem staðsettur verður á sviðinu, spjalli lítilega við þá um daginn og veginn og svo troði þeir upp með gamanmál. Hljómsveit, skipuð þeim Birgi Ísleifi Gunnarssyni úr Motion Boys og Gísla Galdri, verður á sviðinu og tekur virkan þátt í sýningunni. Gunnar tekur fram að erlendu stjörnurnar muni flytja sitt grín á ensku.

„Þótt flestir séu vel að sér í Norðurlandamálum þá byggist grín á svolítið hröðu máli og þá getur verið erfitt að fylgja brandaranum eftir.“ Sjálfur kynntist Gunnar því vel þegar hann fór og sá uppistandssýningu Frank Hvam í Danmörku, hann gat fylgt bröndurunum eftir alveg þangað til að aðalpunktinum kom, þá missti hann þráðinn á meðan allir í kringum hann sprungu úr hlátri.

Gunnar segir það hafa verið algjört lykilatriði að fá Frank Hvam til að troða upp en Hvam er auðvitað önnur af aðalstjörnum dönsku gamanþáttaraðarinnar Klovn sem sýnd hefur verið við miklar vinsældir hér á landi.

„Hann er búinn að vera mjög upptekinn við tökur á myndinni um þá Klovn-félaga en þegar við sáum fram á að þessi dagur væri laus þá stukkum við til,“ segir Gunnar en bætir því við að hinir skemmtikraftarnir séu engu síðri, þeir séu bara ekki jafn þekktir hér á landi. Að öllum líkindum mun Ari Eldjárn hita upp fyrir sýninguna og þá kemur til landsins Linda Mahala, þekkt í heimalandi sínu Noregi. „Það er alveg frábært að fá konu þótt Frímann sjálfur verði ekkert hrifinn af því,“ segir Gunnar.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×