Handbolti

Haaß: Íslendingar voru bara betri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Kraus í leiknum í gær.
Michael Kraus í leiknum í gær. Mynd/Vilhelm
Michael Haaß, leikstjórnandi í þýska landsliðinu í handbolta, viðurkenndi eftir leikinn gegn Íslandi í gær að þeir hafi einfaldlega verið lakari aðilinn í leiknum.

Ísland vann sannfærandi sigur, 36-31, og átti liðið sérstaklega góðan fyrri hálfleik þar sem strákarnir okkar skoruðu 21 mark og Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í markinu.

„Við verðum að viðurkenna að Íslendingar voru bara betri í dag," sagði Haaß í samtali við þýska fjölmiðla í gær. „Við töpuðum leiknum í fyrri hálfleik. Við vorum ekki nógu ákveðnir. Við vildum allir standa okkur vel en getum aðeins sjálfum okkur um kennt."

Þjóðverjar lentu mest níu mörkum undir í síðari hálfleik í gær en náðu að klóra í bakkann og minnka muninn í þrjú mörk, 27-23, þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

„Við náðum að halda í við þá í seinni hálfleik," sagði Michael Kraus. „Það veit á gott fyrir síðari leikinn."

Heiner Brand, landsliðsþjálfari, segir að það megi ekki gleyma því að Þýskaland hefur ekki unnið leik hér á Íslandi síðan 1992.

„En við ætluðum okkur samt að gera betur í þessum leik. Hér tapa þó flest lið, fyrir utan kannski Frakkana," sagði Brand og sagði einnig að frammistaða Björgvins Páls í markinu hafi haft mikið að segja. „Stundum ná markverðir að loka markinu og þá er erfitt að vinna svona sterkt lið."

„Ég bjóst við meiri grimmd í varnarleiknum en þar skorti okkur baráttu. En ég verð samt að hrósa mínum leikmönnum því þeir gáfust aldrei upp í leiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×