Fótbolti

Sir Alex: Sá ekki hvernig þeir gátu byrjað með Torres á bekknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, sagðist hafa verið nokkuð viss um það að Fernando Torres yrði í byrjunarliði Chelsea í seinni leiknum á móti United í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. United tryggði sér sæti í undanúrslitunum með 2-1 sigri á Old Trafford í gær þar sem Torres var tekinn útaf í hálfleik.

„Fullt af fólki hélt að Drogba myndi spila þennan leik. Ég taldi samt að þar sem að þeir voru búnir að borga svona mikið fyrir Torres þá urðu þeir að láta hann spila. Ég var kannski ekki hundrað prósent viss en ég sá ekki hvernig þeir gátu byrjað með Torres á bekknum," sagði Sir Alex Ferguson.

„Torres er búinn að spila á móti okkur nokkrum sinnum og hann var búinn að skora nokkur mörk á Old Trafford en okkur hefur samt gengið bara ágætlega með hann," sagði Ferguson.

Ferguson styður samt þá ákvörðun Chelsea að kaupa Torres fyrir 50 milljónir punda frá Liverpool. „Þeir átti möguleikann á því að ná í Torres og enginn hefði sleppt því í þeirra sporum. Það töldu allir á sínum tíma að þetta væru flott kaup og það er því ekki hægt að gagnrýna Ancelotti fyrir þau. Þetta er ekki að ganga í dag en hann er ungur leikmaður sem á mörg tímabil eftir," sagði Ferguson.

Fernando Torres hefur nú leikið 13 leiki í röð fyrir Chelsea og Spán án þess að skora og alls eru liðnar 817 mínútur síðan að hann skoraði síðast og þá var það fyrir Liverpool.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×