Fótbolti

Þjálfari Gylfa hættir eftir tímabilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Marco Pezzaiuoli, þjálfari Hoffenheim, mun ekki halda áfram með liðið á næsta tímabili en framkvæmdastjóri félagsins gaf þetta út í dag. Pezzaiuoli tók við liðinu af Ralf Rangnick á miðju tímabili en undir hans stjórn hefur liðið aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum.

Pezzaiuoli hefur gefið Gylfa Þór Sigurðssyni afar fá tækifæri síðan að hann tók við. Gylfi hefur aðeins fengið að byrja inn á í tveimur af ellefu deildarleikjum síðan að Pezzaiuoli settist í þjálfarastólinn en Gylfi var búinn að vinna sér sæti í byrjunarliðinu undir stjórn Rangnick. Gylfi hefur skorað 2 mörk á 307 mínútum undir stjórn Pezzaiuoli en gerði 6 mörk á 823 mínútum undir stjórn Rangnick.

„Þetta var ekki auðvelt verkefni fyrir hann en við höfum ákveðið að leita að nýjum þjálfara fyrir næsta tímabil í kjölfar þróun mála á undanförnum vikum," sagði Ernst Tanner, framkvæmdastjóri Hoffenheim.

Pezzaiuoli er 42 ára gamall og var áður aðstoðarmaður Rangnick en Rangnick hætti þegar honum tókst ekki að koma í veg fyrir að félagið seldi Luiz Gustavo til Bayern Munchen. Rangnick er nú orðinn þjálfari Schalke.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×