Eric Abidal, franski varnarmaðurinn hjá Barcelona, hefur átt ótrúlega endurkomu í fótboltann eftir að hafa þurft að fara í uppskurð í mars vegna krabbameins í lifur. Hann er farinn að spila aftur með Barcelona-liðinu og í dag var hann valinn aftur í franska landsliðið.
Laurent Blanc, landsliðsþjálfari Frakka, er með Eric Abidal í 26 manna hópi sínum fyrir leik á móti Hvít-Rússum í undankeppni EM 2012 og tvo æfingaleiki á móti Úkraínu og Póllandi.
Abidal var síðast með franska landsliðinu í 1-0 sigri á Brasilíumönnum í febrúar en hann á að bak 52 landsleiki og var í franska landsliðshópnum sem spilað til úrslita á HM í Þýskalandi 2006.
Abidal vonast einnig til þess að spila úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn þar sem Barcelona mætir Manchester United á Wembley.
