Handbolti

Snorri: Ég bað Jesper um að leigja Anfield næst

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri og Arnór eru hér kátir með sigurlaunin eftir leik.
Snorri og Arnór eru hér kátir með sigurlaunin eftir leik.
"Þetta var meiriháttar gaman. Magnaður dagur. Frábært að verða meistari og ekki verra að setja heimsmet í leiðinni. Það er töff," sagði nýbakaður danskur meistari í handknattleik, Snorri Steinn Guðjónsson, við Vísi.

"Að spila handbolta á fullum fótboltavelli er mjög sérstakt svo ég segi ekki meira. Þetta er búið að vera óraunverulegt í dag og reyndar öll vikan. Það vissi enginn hvað hann var að fara út í. Það er ekki hægt að útskýra hvernig upplifun þetta var. Fólk hefði þurft að vera á staðnum til að skilja það," sagði Snorri í geðshræringu og rifjaði upp þegar hinn skrautlegi eigandi félagsins, milljónamæringurinn Jesper Nielsen, stakk fyrst upp á því að spila á Parken.

"Það var liðspartý og þá lét hann þetta út úr sér. Þá tók hann enginn alvarlega en honum er greinilega alvara með allt og aldrei að vita hvað hann gerir næst," sagði Snorri en verður þetta toppað?

"Ég myndi segja nei ef ég þekkti ekki eigandann. Hann er til alls líklegur. Ég spurði hann að því áðan hvort hann væri ekki til í að leigja Anfield næst. Ég náði aldrei að spila fótbolta þar og þá er eini möguleikinn að spila handbolta á Anfield. Hann tók vel í það þannig að það er aldrei að vita hvað gerist," sagði Snorri og hló dátt.

"Það verður síðan mikil gleði í kvöld og spennandi að sjá hvað kallinn gerir fyrir okkur. Við erum búnir að standa okkur vel og eigum skilið að brosa í kvöld og það munum við svo sannarlega gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×