Handbolti

Jesper Nielsen: Enginn kampavíns-handbolti hjá AG í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn og Arnór fagna einum af mörgum sigrum AG í vetur.
Snorri Steinn og Arnór fagna einum af mörgum sigrum AG í vetur. Mynd/Heimasíða AG
Jesper Nielsen, eigandi danska handboltaliðsins AG, segist ekki vera voðalega hrifinn af spilamennsku síns liðs á þessu tímabili. AG getur tryggt sér tvöfaldan sigur og danska meistaratitilinn með sigri á Bjerringbro-Silkeborg fyrir framan 35 þúsund manns á Parken á morgun.

„Þetta hefur verið fagmannlega unnið hjá strákunum en frammistaðan hefur ekki hrifið mig. Liðið hefur farið langt á vörninni en sóknin hefur ekki verið mjög spennandi," sagði Jesper Nielsen í viðtali á CNN.

Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason spila stórt hlutverk með AG og verða vonandi í sviðsljósinu í úrslitaleiknum á morgun.

„Þetta hefur verið ekki verið sannfærandi og er í raun langt frá því. Það hafa verið nokkrar góðar stundir en það hefur ekki verið spilaður neinn kampavíns-handbolti hjá AG í vetur," sagði Nielsen.

„Ég er ánægður með varnarleikinn og að við höfum verið með bestu markverðina í hverjum leik. Það er vel hægt að hrósa mínum leikmönnum fyrir það að það er ekki auðvelt að skora á móti liðinu," sagði Nielsen.

Nielsen hefur þegar náð í sterka leikmenn fyrir átökin á næsta tímabili og þar á meðal eru þeir Ólafur Stefánsson og Guðjón Valur Sigurðsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×