Handbolti

Þjóðverjar unnu í Austurríki - úrslitaleikur í Höllinni á sunnudag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sebastian Preiss.
Sebastian Preiss. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Þjóðverjar tryggðu sér í kvöld farseðilinn í úrslitakeppni Evrópumótsins í Serbíu eftir öruggan átta marka sigur á Austurríki, 28-20 í Innsbruck. Ísland og Austurríki geta ekki bæði komist upp fyrir Þýskaland hvernig sem lokaumferðin spilast og því er ljóst að þýska liðið er komið áfram.

Þjóðverjar tóku völdin strax í byrjun leiks, komust í 4-1, 7-2, 13-7 og voru síðan 15-8 yfir í hálfleik. Það kom spenna í leikinn í upphafi seinni hálfleiks þegar Austurríkismenn náðu að minnka muninn í tvö mörk, 19-17, með því að skora 9 af fyrstu 13 mörkum seinni hálfleiksins. Þjóðverjar hrukku hinsvegar aftur í gang og tryggðu sér sannfærandi sigur.

Þjóðverjar eru með jafnmörg stig og Austurríki en eru með betri árangur í innbyrðisviðureignum alveg eins og á móti Íslandi sem er einu stigi á eftir efstu liðum riðilsins.

Þessi úrslit þýða líka nefnilega að Ísland og Austurríki spila hreinan úrslitaleik um sæti í úrslitakeppninni í Laugardalshöllinni á sunnudaginn kemur. Leikurinn hefst klukkan 16.30 og þar þurfa Strákarnir okkar á góðum stuðningi að halda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×