Handbolti

Þórey Rósa gengur til liðs við Rut í Tvis Holstebro

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorey Rósa Stefánsdóttir.
Þorey Rósa Stefánsdóttir. Mynd/Daníel
Hægri hornarmaðurinn Þórey Rósa Stefánsdóttir hefur skrifað undir eins árs samning við Team Tvis Holstebro í Danmörku. Þórey hittir fyrir landsliðsfélaga sinn Rut Jónsdóttur hjá danska félaginu.

„Þetta er spennandi félag með mikinn metnað. Þetta er gott tækifæri fyrir mig til þess að þróa leik minn. Ég vona að liðið haldi uppteknum hætti frá síðustu leiktíð og ég geti sýnt hæfileika mína og spilað hlutverk í liðinu,“ sagði Þórey Rósa við danska fjölmiðilinn hbold.dk.

Þórey Rósa hefur spilað sem atvinnumaður í Hollandi og Þýskalandi undanfarin ár. Hún er fastamaður í íslenska landsliðinu sem tryggði sér þátttökurétt á HM í Brasilíu í desember.

„Við höfum fylgst með Þóreyju en hingað til hentaði það ekki vegna menntunar hennar. Nú gengur þetta vel upp, við höfum opið pláss á hægri vængnum og svo skrifaði kærastinn hennar (Einar Ingi Hrafnsson) undir hjá Mors Thy,“ sagði Niels Agasen þjálfari Tvis Holstebro.

Þórey Rósa Þórey Rósa hittir fyrir Rut Jónsdóttur félaga sinn úr landsliðinu og hægri skyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×