HK-drengir fæddir árið 1998 hlutu gullverðlaun á Partille Cup handknattleiksmótinu sem lauk í Gautaborg um síðustu helgi. HK vann stórsigur á IFK Kristianstad í úrslitaleik 19-9. Mótið er það fjölmennasta sinnar tegundar í heiminum.
Fjallað er um glæsilegan árangur HK-drengjanna á heimasíðu félagsins www.hk.is. Þar segir að HK-ingar hafi sigrað í sínum riðli með miklum yfirburðum. Markatalan 78 mörk í plús eftir sex leiki. Þeir fóru nokkuð létt í gegnum 32-liða úrslitin en meiri spenna var í leikjunum sem á eftir fóru.
Í 16-liða úrslitum mættu HK-ingar Skive frá Danmörku og lauk leiknum með jafntefli en HK-ingar tryggðu sér sigur með gullmarki Kristjáns Hjálmssonar úr vítakasti. Hið sama var uppi á teningnum gegn H43 frá Svíþjóð í 8-liða úrslitum þegar Kristleifur Þórðarson skoraði gullmark af línunni.
Í undanúrslitum mættu HK-strákarnir Sävehof einu stærsta handknattleiksfélagi Svía. HK vann 12-10 sigur í baráttuleik og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum gegn IFK Kristanstad.
Í úrslitaleiknum voru HK-ingar mun sterkari. Þeir komust í 4-0 og síðan í 7-1. Forskotið létu strákarnir aldrei af hendi og unnu stórsigur, 19-9.
Leikmenn og þjálfarar á myndinni.
Frá vinstri: Ólafur Finnbogason (þjálfari), Birkir Valur Jónson (markmaður), Kristófer Dagur Sigurðsson, Kristján Hjálmsson, Kristleifur Þórðarson, Stefán Jónsson, Markús Björnsson, Fannar Gissurarson, Gísli Martin Sigurðsson, Jón Dagur Þorsteinssson, Garðar Svansson (aðstoðarþjálfari)
