OB er með 1-0 forystu í rimmunni gegn spænska liðinu Villarreal í forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leikurinn fór fram í Danmörku í kvöld.
Rúrik Gíslason var í byrjunarliði OB í kvöld og lék einn í fremstu víglínu liðsins. Hann var tekinn af velli á 81. mínútu.
Villarreal var mun líklegri aðilinn til að skora í kvöld og fékk fjölmörg tækifæri til þess. Stefan Wessels, markvörður OB, varði hins vegar oft vel í leiknum.
Svo fór á endanum að OB skoraði eina mark leiksins og það á 83. mínútu. Hans Henrik Andreasen var þar að verki eftir að hafa komist inn í skelfilega sendingu frá varnarmanni Villarreal.
Liðin mætast að nýju í næstu viku og þá á Spáni. Sigurvegarinn í rimmunni kemst áfram í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
