Danski kylfingurinn Thomas Björn stóð uppi sem sigurvegari á Johnnie Walker meistaramótinu sem fram fór á Gleneagles vellinum í Skotlandi. Björn hafði betur gegn fjórum öðrum kylfingum í bráðabana um sigurinn en fimm kylfingar voru efstir og jafnir eftir 72 holur.
Björn lék lokahringinn á 69 höggum eða -3 og samtals var hann á -11. George Coetzee, Bernd Wiesberger og Pablo Larrazábal voru allir á sama skori. Wiesberger og Larrazábal féllu úr keppni strax á fyrstu holu í bráðabana. Foster féll úr leik eftir þrjár holur og Björn landaði sigrinum á fimmtu holu með því að fá fugl.
Björn, sem er fertugur, virðist vera að ná sér á strik á nýjan leik en hann varð fjórði á opna breska meistaramótinu á þessu ári. Þetta er annar sigur hans á þessu ári en hann sigraði á Katar meistaramótinu fyrr á þessu ári. Alls hefur Björn unnið 12 mót á Evrópumótaröðinni en hann er núna í 55. sæti heimslistans en hann var í 70. sæti fyrir mótið í Skotlandi.
Thomas Björn hafði betur í fimm manna bráðabana
