Birkir Már Sævarsson og félagar í Brann gerðu 1-1 jafntefli á móti Tromsö í toppslag í norsku úrvalsdeildinni í kvöld. Brann er því áfram í 3. sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Tromsö og sex stigum á eftir toppliði Molde.
Þetta var þriðja jafntefli Brann-liðsins í röð í deildinni og öll þessi töpuðu stig hafa þýtt að liðið er að dragast mikið aftur úr í baráttunni við Molde um norska meistaratitilinn.
Birkir Már gerði sekan um dýrkeypt mistök á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Brann var með 1-0 forystu. Birkir Már lagði boltann þá óviljandi fyrir Mostafa Abdellaoue í teignum og Abdellaoue átti ekki í miklum vandræðum með að jafna leikinn í 1-1. Það voru síðan ekki skoruð fleiri mörk í seinni hálfleiknum.
Birkir Már lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Brann en hann fékk gult spjald á 77. mínútu leiksins.

