Hollendingurinn Klaas-Jan Huntelaar skoraði fjögur mörk þegar Schalke vann 6-1 sigur á finnska liðinu HJK Helsinki í forkeppni Evrópudeildarinnar en Finnarnir höfðu unnið fyrri leikinn 2-0 á heimavelli.
Þrjú af fjórum mörkum Klaas-Jan Huntelaar komu af vítapunktinum en Teemu Pukki jafnaði leikinn fyrir HJK aðeins fimm mínútum eftir að Huntelaar skoraði fyrsta mark leiksins.
Huntelaar kom Schalke aftur yfir á 25. mínútu og skoraði síðan þriðja markið á 49. mínútu. Kyriakos Papadopoulos skoraði fjórða markið áður en Huntelaar innsiglaði fernu sína og lokaorðið átti síðan Julian Draxler.
