Barcelona hefur lánað Hvít-Rússann Alexander Hleb til þýska liðsins Wolfsburg. Hleb hefur átt erfitt uppdráttar í boltanum síðan hann gekk til liðs við Barcelona frá Arsenal árið 2008.
Hleb kannast ágætlega við það hlutskipti að vera lánaður til annars félags. Á síðasta tímabili var miðjumaðurinn þrítugi lánaður til Birmingham í ensku úrvalsdeildinni. Árið á undan spilaði hann með Stuttgart í efstu deild Þýskalands þar sem hann sló í gegn á sínum tíma.
Hleb hefur glímt við meiðsli á hné en gæti reynst Felix Magath, knattspyrnustjóra Wolfsburg, mikill liðsstyrkur.
