Massimo Ambrosini, leikmaður AC Milan, verður frá næstu 2-3 vikurnar þar sem hann meiddist á öxl í leik liðsins gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöldið.
Ambrosini kom inn á sem varamaður fyrir Kevin-Prince Boateng á 33. mínútu en kláraði engu að síður leikinn. Nú hefur verið staðfest að hann meiddist á hægri öxl.
Svo gæti farið að hann missi af næstu fimm leikjum AC Milan, þar af gegn Napoli og Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni, en einnig gegn Viktoia Plzen í Meistaradeildinni.
Það eru hins vegar betri fréttir af Boateng sem meiddist á mjöðm í leiknum. Meiðslin eru ekki eins alvarleg og í fyrstu var óttast og er talið að hann verði tíu daga að jafna sig.
