Enski boltinn

Villas-Boas: Lampard verður í mörg ár til viðbótar hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
André Villas-Boas og Frank Lampard.
André Villas-Boas og Frank Lampard. Mynd/Nordic Photos/Getty
André Villas-Boas, stjóri Chelsea, segist ekki skilja alla dramatíkina í kringum Frank Lampard í enskum fjölmiðlum en flestir enskir fótbolta-blaðamenn hafa verið að velta því fyrir sér hvort dagar enska miðjumannsins séu taldir hjá félaginu.

„Af hverju er Lampard ekki að spila? Ég spyr á móti í hversu mörgum leikjum hefur hann verið í byrjunarliðinu? Þið einblínduð á það neikvæða í staðinn fyrir það að sjá jákvæða. Ég tel að ég hafi svarað þessu nógu oft áður," sagði Villas-Boas pirraður þegar hann var spurður út í af hverju Frank Lampard væri ekki lengur fastamaður í Chelsea-liðinu.

„Frank er frábær leikmaður og hann er leikmaður sem hefur sannað sig sem toppleikmaður. Hann er einn af þeim mikilvægustu hjá félaginu og verður það áfram. Hann þarf ekkert að sanna lengur fyrir fótboltaheiminum enda er hann mikill liðsmaður og algjör fagmaður. Ég vona að hann haldi áfram að ná árangri með Chelsea og hann verður hér í mörg ár til viðbótar svo lengi sem ég er hér," sagði Villas-Boas og bætti við:

„Það eru 26 leikmenn að berjast um 11 byrjunarliðssæti. Af hverju þessi dramatík?," spurði Villas-Boas en honum var þá bent á það hann sé fyrsti stjórinn í tíð Roman Abramovich sem notar ekki Lampard í öllum leikjum.

„Ég er bara að hugsa um að stýra mínu liði og halda öllum leikmönnum á tánum. Ég er ekki að reyna að vera hugrakkur því allt er þetta gert svo liðið ná sem bestum árangri," sagði Villas-Boas en framundan er leikur á móti Valenica í Meistaradeildinni í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×